Margvísleg skordýr hafast við og þrífast í mannabústöðum á Íslandi, eins og víðar. Við getum greint öll þessi dýr og veitt faglega þjónustu til að uppræta vandann. Við leggjum metnað í að greina grunnvanda þannig að hægt sé að komast endanlega fyrir vandamálið.

Sum þessara skordýra valda tjóni en önnur eru bara hvimleið. Dæmi um algengar tegundir eru; Veggjalýs, veggjatítlur, hambjöllur, klóakmaur og margfætla svo eitthvað sé nefnt. Við getum hjálpað við að greina óboðna gesti og ráðleggja hvernig á að bregðast við þeim. Hér að neðan má sjá dæmi um nokkur af algengustu meindýrunum sem Íslendingar þurfa að kljást við.

Meindýrin

  • Eigandi myndarinnar er Christian Fischer. Birt undir CC BY-SA 3.0-leyfi Creative Commons.

    Silfurskotta

    Silfurskottan hefur fylgt Íslendingum um aldir og er hún eitt algengasta meindýrið í híbýlum manna á Íslandi. Silfurskottan þarf 75-80% raka til að fjölga sér.

    Hjá silfurskottunni eru meyfæðingar og þarf því ekki nema eitt dýr svo hún geti fjölgað sér. Silfurskottan getur verpt allt að hundrað eggjum á lífsleiðinni, en þær geta orðið allt fjögurra ára gamlar. Haldi silfurskotta áfram að fjölga sér er mjög líklegt að rakavandamál sé til staðar í húsnæðinu. Algengustu rakavandamál má finna undir baðkari, sturtubotnum, eldhússkápum, lagnakerfi eða yfir höfuð þar sem raki getur verið til staðar.

  • Hveitibjalla

    Hveitibjallan er vel þekkt meindýr hér á landi, en hún leggst oft á mjöl og annað kornmeti. Fullorðin dýr eru dökkbrún að lit og geta orðið allt að sex sentímetra löng. Kvendýrin verpa eggjum sínum í mjöl og kornvörur. Eftir um tvær vikur skríða ljósar lirfurnar úr þeim og vaxa hratt og ná um 1 mm lengd á fáeinum vikum. Þá púpa þær sig og koma úr púpunni sem fullorðnar bjöllur. Þetta ferli tekur aðeins um þrjá mánuði.
    Hveitibjöllur eru frekar langlífar, en þær geta orðið allt að þriggja ára gamlar. Á þeim tíma geta þær farið víða um heimilið í leit að matarleifum, svo sem brauðmylsnu. Rétt er að kalla til meindýraeyði ef þær finnast á heimili eða í húsakynnum.

  • Brúnrotta

    Brúnrotta er 24-30 sm löng og halinn 18-20 sm. Hún er mórauð, mógrá, gulgrá eða rauðgrá að ofan en ljósgrá að neðan án skýrra litaskila. Aðalmunur á henni og svartrottunni er styttri hali og minni augu og eyru. Halinn á henni er líka ljós að neðan, sem á ekki við svartrottuna. Fólk ruglar oft rottuungum saman við mýs, en þeir þekkjast þó á öflugri afturfótum og gildari hala. Brúnrottan er í híbýlum manna og mannvirkjum um allan heim. Brúnrottan fannst hér á landi um miðja átjándu öld.

    Útbreiðslu hennar um landið var lokið seint á 19. öld. Hún er helst á ferli í ljósaskiptunum en líka að degi til, þar sem hún er ótrufluð. Brúnrottur eru mikið á ferðinni í holræsum, fjörum og sorphaugum, þar sem þær lifa á lífrænum úrgangi og valda víða miklum skemmdum. Meðalaldur brúnrottunnar er eitt ár. Þær bera oft með sér sóttkveikjur. Mikilvægt er að hafa samband við meindýraeyði ef grunsemdir eru um að rottur séu á ferðinni.

  • Veggjalús getur verið afar hvimleiður gestur og erfitt að losna við þessa óværu. Best er að kalla til fagmenn og við kunnum að meðhöndla verkefnið

    Veggjalús

    Veggjalús er sporöskjulaga, brúnleitt skordýr sem verður um 5 mm á lengd fullvaxið. Hungruð er lúsin flatvaxin en þenst út eftir að hafa sogið blóð og getur þá allt að sjöfaldað þyngd sína. Jafnframt verður liturinn dökkrauðleitur af öllu blóðinu sem hún innbyrðir. Þegar lúsin hefur fengið nóg af blóði leggst hún á meltuna, makast og verpir eggjum. Kvendýrið getur verpt 200-500 eggjum á æviskeiðinu. Ungviðið líkist fullorðna dýrinu og þarf að ganga í gegnum fimm hamskipti til að ná fullum þroska.

    Hver hamskipti kalla á að minnsta kosti einn skammt af blóði. Á daginn felur lúsin sig þar sem hún kemst í skjól. Skýr merki um tilvist hennar eru; svartur saurinn, lirfuhamir, dauð dýr.

    Um nætur tekur lúsin til starfa og sýgur blóð úr fórnarlömbum sínum sem þá sofa værum blundi og verða ekki vör við neitt.

    Veggjalús stingur aðeins þegar hún er á berri húð og oft eru stungurnar nokkrar í röð. Stundum koma blóðblettir í sængurföt þegar veggjalús hefur verið að verki. Maður finnur ekki fyrir sársauka við sjálfa stunguna en einkennin eru útbrot og kláði sem koma fram eftir nokkra daga eða jafnvel vikur.

    Heimild: Umhverfisstofnun

  • Lúsmý

    Lúsmý

    Sex tegundir lúsmýs voru á Íslandi þar til fyrir nokkrum árum að sú sjöunda uppgötvaðist. Hinar fyrri sex tegundir létu stærri spendýr vera og bitu ekki fólk. Nýjasta ættkvíslin hefur oft ratað í fréttir enda leggst hún á menn og sýgur úr þeim blóð. Blóð spendýra er lífsbjörg fyrir lúsmýið. Kvenflugan þarf blóð til að geta þroskað egg og komið næstu kynslóð áfram. Þær leggja því allt á sig til að uppfylla þessa þörf.

    Svo litlar eru þessar blóðsugur að afar erfitt er að greina þær nema þær setjist á húð og þá einkum ljósa húð.

    Tími lúsmýs hefst í júní og stendur fram í miðjan ágúst. Í ljósi þess hve langur flugtíminn er, hafa komið fram getgátur um að á ferðinni kunni að vera tvær kynslóðir sem klekjast á hverju ári. Lúsmýið klekst gjarnan í grennd við vatn eða blautan svörð.

    Erfitt er að verjast þessum vargi en þó er rétt að hafa nokkra hluti í huga. Lúsmý leitar inn um opna glugga og leggst á sofandi fólk. Þeir líkamshlutar sem standa út undan sæng eru kjörlendi.

    Ef logn er að kveldi er rétt að loka gluggum eða verjast þessum gestagangi með fíngerðu og þéttriðnu neti sem hægt er að koma fyrir í gluggum. Vifta í herbergi sem heldur lofti á stanslausri hreyfingu getur gert gagn þar sem þessar agnarsmáu flugur eru afar léttar og ekki miklir fluggarpar. Að sofa í náttfötum er góður kostur.

    Ef fólk verður vart við bit þá er gott að bera kælikrem á bitin, þau geta valdið kláða og verulegum óþægindum. Á vísindavefnum er greint frá því að séu útbrot mikil og víða hjálpi ofnæmislyf, en þau má fá í lyfjaverslunum um land allt án uppáskriftar læknis.

    Lúsmý getur bara athafnað sig í logni og við minnsta vind þá leita þessar agnarsmáu flugur skjóls. Eins og fyrr segir er erfitt að greina þær og ekki bætir úr skák að þær líkjast mjög rykmýi sem er mönnum skaðlaust.

    Útbreiðsla lúsmýs hefur verið að aukast á Íslandi og telja jafnt leikmenn sem fræðimenn að þar kunni hreinlega vindáttir að spila tímabundið hlutverk.

    Kælikrem og ofnæmistöflur ættu því að vera hluti af undirbúningi ferðalagsins í sumar og jafnvel heima við líka.

  • Mýs

    Mýs

    Músagangur er hvimleitt og alvarlegt vandamál ef upp kemur. Mýs í hýbýlum manna geta valdið miklu tjóni, bæði á raflögnum og húsgögnum. Þeim fylgja óþrifnaður og hvimleið lykt. Þegar til okkar er leitað við að uppræta músagang í atvinnuhúsnæði eða á heimilum má segja að verkefnið sé tvíþætt. Finna og losna við hina óboðnu gesti er forgangsverkefni. Það leysir hins vegar ekki málið nema að hluta. VE leggur því áherslu á að komast að rót vandans og finna með hvaða hætti mýs hafa komist inn í bygginguna og loka þeirri leið. Fyrr er vandamálið ekki leyst. Um leið og vart verður við mýs á óæskilegum stöðum er mikilvægt að hafa samband hið fyrsta. Þær fjölga sér hratt og hreiðra um sig þar sem síst skyldi.